154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[14:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa skýrslu og hennar óbilandi áhuga á málaflokknum. Hún hefur sýnt hann í verki og það ber að þakka. En það er í mörg horn að líta og í þessari skýrslu sést glöggt að það eru um 63% sem ekki þiggja námslán; vextir eru of háir, framfærslulánið er of lágt. Það er ómögulegt nánast fyrir einstaklinga með börn sem ekki komast í stúdentaíbúð og annað slíkt að nýta sér kerfið. Við erum að horfast í augu við það að þetta kerfi okkar mismunar þeim sem standa illa fjárhagslega og er ekki að gefa þeim og veita þeim aðgang inn í háskólanámið. Enn og aftur erum við að horfast í augu við mismunun vegna efnahags. Við sjáum líka að á sama tíma og er verið að tala um 30% í styrk fyrir þá sem skila X einingum þá er það ómögulegt fyrir þann stúdent og þann háskólanema sem er að reyna að berjast til náms og þarf að vinna með því. Það er nánast ómöguleiki fyrir hann að standa undir öllum þeim einingum sem er af honum krafist til þess að hann geti hlotið þennan styrk, þennan stuðning sem allir vilja jú fá. Þannig að ég velti fyrir mér, þar sem við erum að horfa upp á mikið brottfall úr námi og við sjáum það að jafnvel 75% nemenda sem voru innt eftir því sögðu: Ég vildi frekar sleppa því að taka lán — hvernig er samsetning þessara 63% nemenda sem segjast ekki vera að taka námslán? Það liggur algjörlega á borðinu að sá hópur er með einhvern bakhjarl. Sá hópur hefur annan stuðning, sem styður hann til náms. Ég spyr hæstv. ráðherra út í nákvæmlega þetta, hvort það sé þá í rauninni ekki meiri fjárfesting, eins og einhverjir hv. þingmenn hafa sagt hér á undan mér, í því hreinlega að taka utan um allan hópinn og fjárfesta í honum bara almennilega í stað þess að vera mismuna eftir efnahag, að geta í rauninni farið og sótt sér nám.